Erlent

Trump kvartar form­lega vegna yfir­töku Harris á sjóðum Biden

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Harris hefur mælst betur gegn Trump en Biden frá því að síðastnefndi dró sig í hlé.
Harris hefur mælst betur gegn Trump en Biden frá því að síðastnefndi dró sig í hlé.

Framboð Donald Trump hefur skilað inn kvörtun til alríkiskjörnefndarinnar sem hefur umsjón með forsetakosningum í Bandaríkjunum. Ástæðan er yfirfærsla fjármuna í kosningasjóðum Joe Biden til Kamölu Harris.

Í kvörtuninni sakar David Warrington, lögmaður framboðs Trump, Harris um að brjóta gegn lögum um fjármögnun kosningabaráttu með því að hafa skipt út nafni Biden fyrir sitt nafn til að fá aðgang að fjármununum.

Hann segir ekki standast lög að breyta einfaldlega nafninu á framboðinu úr „Biden til forseta“ í „Harris til forseta“ til að tryggja Harris aðgengi að 91 milljón dala í sjóðum framboðsins.

Í kvörtuninni, sem er átta síður, segir að í raun sé um að ræða 91 milljón dala framlag frá einum forsetaframbjóðanda til annars, sem sé klárt brot á lögum. 

Lög banni að kandídatar eigi áfram fjármuni sem hafa verið gefnir til kosningabaráttu fyrir kosningar sem þeir munu ekki taka þátt í. Þannig verði Biden að skila umræddum fjármunum til þeirra sem gáfu þá í kosningasjóði hans, fyrst hann ákvað að hætta við framboð sitt.

Warrington fer þess á leit að kjörnefndin frysti aðgengi Harris að fjármununum þar til málið er komið á hreint.

Óvíst er hvort kvörtunin muni skila nokkru en erlendir miðlar hafa greint frá því að teymi Trump leiti nú allra leiða til að draga úr þeim skriðþunga sem Harris virðist njóta. Málsóknir vegna kosningasjóðanna séu einn möguleiki í stöðunni.

Guardian hefur eftir heimildarmönnum sem þekkja til framboðs Harris að þar á bæ hafi menn ekki miklar áhyggjur af málinu, þar sem sjóðirnir hafi alltaf verið ætlaðir til notkunar fyrir Biden og Harris. Þá hefur verið bent á að 100 milljónir dala hafi safnast í sjóðina frá því að Harris tók við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×