Ægir Jarl skipti á dögunum yfir til C-deildar liðsins AB í Danmörku frá Bestu deildar liði KR en þar mun Ægir Jarl leika undir stjórn Íslendingsins Jóhannesar Karls Guðjónssonar. Í viðtali við íþróttadeild Stöðvar 2 á dögunum sagði Ægir Jarl frá langþráðum draumi sínum að leika knattspyrnu erlendis og því var það erfitt fyrir hann að hafna tækifærinu að leika fyrir AB.
Nýr í Danaveldi og ekki hægt að kenna Ægi Jarli um það að hann viti lítið um nágrannaslagi eða hatrömm sambönd liða þar í landi. Því fór hann, myndi maður ætla, ansi rólegur á leik Lyngby og FC Kaupmannahafnar í dönsku úrvalsdeildinni í gær á heimavelli Lyngby að styðja við bakið á kunningjum sínum. Sannkallaðan Íslendingaslag þar sem fjölmargir Íslendingar eru á mála hjá þessum tveimur liðum.
Sögulega séð er mikill rígur á milli AB, núverandi félags Ægis Jarls, og Lyngby. Íslendingurinn birti færslu á samfélagsmiðlum þar sem mátti sjá að hann var mættur á leik gærkvöldsins en skyndilega var sú færsla dregin til baka.

Í kjölfarið birtir Ægir Jarl afsökunarbeiðni og ljóst að eitthvað mikið hafði gengið á, stuðningsmenn AB látið heyra í sér.
„Varðandi fyrri færslu mína. Þetta er til allra stuðningsmanna AB. Ég biðst afsökunar, ég biðst afsökunar!“ sagði í færslu Ægis Jarls þar sem að hann útskýrir svo hvernig hann hafi ekki áttað sig á þeim stóra sögulega ríg sem ríkir á milli AB og Lyngby.
„Ég er ekki fullkominn. Ég var mættur á leikinn til þess að styðja við íslenska leikmenn sem spila fyrir félagið og buðu mér á leikinn. Ég lofa af fullu hjarta að ég mun leggja líf og sál í verkefnið hjá AB svo við getum náð sameiginlegum markmiðum okkar.“