Tilnefningar til verðlaunanna voru tilkynntar síðdegis. Atli er tilnefndur fyrir tónlist sína í sjónvarpsþáttunum Silo, sem sýndir eru á streymisveitunni Apple TV+. Tónskáld fimm annarra tónverka eru tilnefnd í sama flokki. Þar á meðal fyrir tónlistina í The Crown, Mr. & Mrs. Smith og Shōgun.
Í apríl hlaut Atli BAFTA-verðlaunin fyrir tónlist sína í sömu þáttum.
Nokkrir í hópi tilnefndra vegna True Detective
Fréttastofu barst ábending um að fleiri Íslendingar hafi hlotið tilnefningu, fyrir þættina True Detective: Night Country. Þættirnir voru teknir upp á Íslandi og eru meðal annars sýndir á Stöð 2+. Íslendingarnir eru í hópi fólks sem hljóta sömu tilnefninguna í viðkomandi flokki.
Skúli Helgi Sigurgíslason er tilnefndur í flokki framúrskarandi hljóðblöndunar, Alda B. Gudjónsdóttir í flokki leikaravals, Rebekka Jónsdóttir í flokki búninga, Flóra Karítas Buenaño og Hafdís Pálsdóttir í flokki förðunar og Eggert „Eddi“ Ketilsson í flokki tæknibrella.
Emmy-sjónvarpsverðlaunin fara fram þann 15. september í Los Angeles. Sjónvarpsþættirnir Shōgun hlutu flestar tilnefningar að þessu sinni, eða 25 tilnefningar. The Bear hlaut næstflestar tilnefningar, 23 talsins.
Lista yfir tilnefningar til Emmy-verðlaunanna má nálgast hér.
Fréttin hefur verið uppfærð.