Erlent

„Ég ætti að vera dauður“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Trump og öryggisverðirnir þegar skotið hafði hæft hann í eyrað.
Trump og öryggisverðirnir þegar skotið hafði hæft hann í eyrað. Getty

„Ég á að vera dauður,“ sagði Donald Trump við New York Post í gær, þegar hann ræddi við miðilinn um banatilræðið sem hann lifði af. Hann sagði upplifunina hafa verið „afar súrrealíska.“

New York Post greinir frá þessu.

„Ég ætti ekki að vera hérna, ég á að vera dauður. Læknirinn sagði að hann hefði aldrei séð annað eins, hann kallaði þetta kraftaverk,“ sagði Trump. Hann var með stórt hvítt sárabindi um hægra eyrað, bannað var að taka ljósmyndir.

Trump segir að hefði hann ekki snúið höfðinu örlítið til hægri til þess að lesa af skilti um ólöglega innflytjendur, hefði skotið drepið hann. Í staðinn reif það lítinn bút úr eyra hans.

Hann sagðist hafa viljað halda ræðunni áfram, en öryggisverðirnir hafi sagt honum að það væri ekki öruggt og að þeir þyrftu að koma honum á spítala. Hann kvaðst þakklátur öryggisvörðunum, sem hann sagði hafa tæklað hann eins og varnarmenn í fótbolta.

Bíðið, mig vantar skóinn

Trump gerði einnig grein fyrir ummælum sem hafa vakið athygli um skóinn, í myndbandinu af atvikinu má heyra hann segja „Bíðið, mig langar að sækja skóinn minn.“

Hann útskýrir málið fyrir New York Post, en hann segir að öryggisverðirnir hafi tæklað hann svo harkalega að skórnir hafi dottið af honum, „og þeir eru samt þröngir,“ sagði hann brosandi.

Trump var spurður að því hvort hann hefði hugsað sér að mæta í jarðarför mannsins sem lést, en maðurinn var slökkviliðsmaður sem fórnaði sér og hlífði konu sinni og dóttur við skotunum. 

„Já“ sagði Trump, og sagði svo við aðstoðarmenn sína „finnið númerinn, mig langar að fara á spítalann og hringja í allar fjölskyldurnar.“

„Hvort sem það er af guðs náð eða lukku, margir segja þetta sé guði að þakka, þá er ég ennþá hér,“ segir Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×