Innlent

Rann­sókn lokið á máli sem snýr að Polar Nanoq

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Grænlenski togarinn Polar Nanoq.
Grænlenski togarinn Polar Nanoq. víðir már hermannsson

Rannsókn á kynferðisbrotamáli sem á að hafa átt sér stað um borð í grænlenska frystitogaranum Polar Nanoq er nú lokið og málið komið á borð ákærusviðs ríkislögreglustjóra.

Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Vísi að þrír menn hafi enn stöðu sakbornings og að þeir hafi verið skipverjar um borð í Polar Nanoq. Mennirnir voru handteknir laugardaginn 8. júní en ekki liggur fyrir hvort að ákæra verði gefin út að svo stöddu.

Ekkert mál að ná til mannanna

Um er að ræða sama togara og í máli Thomas Møller Olsen, sem var skipverji á togaranum árið 2017. Olsen var dæmdur í nítján ára fangelsi fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur og smygl á umfangsmiklu magni af kannabisefnum.

Skipverjarnir þrír fóru úr landi með togaranum degi eftir handtökuna en Ævar segir að það sé ekkert mál að ná til mannanna ef það verður gefin út ákæra. 

„Það er minnsta mál að ná til þeirra aftur. Ef þess þarf er það lítið mál. Við höfum okkar leiðir til þess.“

Rannsaka kynferðisbrot

Úgerðarstjóri Siggu A/S, sem gerir út Polar Nanoq, hefur áður sagt að rannsókn lögreglu sneri að innbroti um borð í skipinu en ekki kynferðisbroti og gagnrýndi vinnubrögð lögreglu. Ævar segir að aðeins sé verið að rannsaka hvort að kynferðisbrot hafi átt sér stað. 

Spurður hvort að meint brot átti sér stað um borð í skipinu segist hann ekki getað staðfest það. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×