Erlent

Fé­lagi í Norðurvígi grunaður um stunguárás á tólf ára dreng

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tvær stunguárásir voru gerðar í verslunarmiðstöðinni Valkea á sex dögum. 
Tvær stunguárásir voru gerðar í verslunarmiðstöðinni Valkea á sex dögum.  EPA

Á tæpri viku hafa tvær stunguárásir verið gerðar i sömu verslunarmiðstöð í borginni Oulu í Finnlandi. Karlmaður var handtekinn í vikunni í tengslum við aðra þeirra, grunaður um að hafa stungið tólf ára dreng. Árásirnar eru rannsakaðar sem hatursglæpir. 

Yle segir frá árásunum tveimur. Hinn 33 ára gamli Sebastian Lamsa var handtekinn á mánudaginn grunaður um fyrri stunguárásina, sem gerð var á fimmtudaginn í verslunarmiðstöðinni Valkea í Oulu. 

Lamsa er sagður þekktur öfgahægrimaður í Finnlandi. Hann var áður virkur meðlimur í samtökunum Norðurvígi (NRM) áður en yfirvöld bönnuðu starfsemi samtakanna í landinu. Hann hefur áður verið sakfelldur fyrir ofbeldisglæpi en neitað að kynþáttafordómar liggi þar að baki.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna skilgreindi Norðurvígi opinberlega sem hryðjuverkasamtök síðasta föstudag. 

Sem fyrr segir er Lamsa grunaður um að hafa stungið tólf ára gamlan dreng af ótilgreindum erlendum uppruna. Lögreglu grunar að árásin hafi verið kynþáttahatursglæpur. Drengurinn hlaut alvarlega áverka af árásinni að því er kemur fram í umfjöllun Yle. 

Á þriðjudagskvöld var önnur stunguárás gerð í sömu verslunarmiðstöð. Táningur, sem sagður er eldri en fimmtán ára, er í haldi lögreglu grunaður um að hafa stungið 26 ára gamlan mann af asískum uppruna. 

Lögreglan í Oulu sagði í yfirlýsingu að samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir virðast báðar árásirnar hafa verið kynþáttahatursglæpir. Lögreglu grunar að seinni árásin hafi verið gerð að frumkvæði þeirrar fyrri.

Alexander Stubb forseti Finnlands segir árásirnar mikið áfall og óskar fórnarlömbum góðs bata. Þá hafa flestir ráðherrar landsins fordæmt árásirnar opinberlega. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×