Pitstop torfæran fór fram í gryfjum í Stangarhyl við Svínavatn á Suðurlandi í dag. Þetta var fyrri umferð af tveimur í bikarmóti torfærunnar, en auk bikarmótsins eru fimm umferðir í Íslandsmeistaramótinu.
Gryfjurnar í Stangarhyl er tiltölulega nýtt keppnissvæði en tvær keppnir voru haldnar þar í fyrra. Þá sannaðist að svæðið býður upp á mikil tilþrif. Brött börð þýða stór stökk og stærri veltur ef ökumenn hafa ekki hraðann til að komast upp.
Seinni umferðin í bikarmóti torfærunnar fer fram á Blönduósi 20. júlí.