Verkfallið hófst 11. maí síðastliðinn, þegar félagsmenn í Føroya arbeiðarafelagi, Havnar arbeiðarafelagi, Klaksvíkar arbeiðskvinnufelagi og Klaksvíkar arbeiðsmannafelagi lögðu niður allir niður störf.
Mikilla áhrifa af verkfallinu er að gæta í færeysku samfélagi. Til dæmis hefur dagvistunarstofnunum verið lokað af því að ræstingarfólk er í verkfalli. Verslanir hafa stytt afgreiðslutíma og hillur þeirra orðnar tómlegar. Mikill eldsneytisskortur er í landinu. Sorphirðumenn hafa lagt niður störf og hefur rusl víða safnast í hauga.
Engar laktósalausar vörur
Verkfallið hefur leikið konu frá heimili á Eiði þar sem enginn þolir laktósa grátt. Laktósalausar vörur sem fjölskyldan hefur lagt í vana sinn að kaupa koma ekki lengur til landsins. Kringvarpið tók viðtal við konuna.
Þá hefur borið á því að verslanir frysti ferskvörur, þíði frystivörur og selji sem slíkar. Slík vinnubrögð eru þó ekki leyfileg, að sögn starfsmanns heilbrigðiseftirlits Færeyja.
Ríkissáttasemjari Færeyja, Terji Sigurðsson, sagði að of langt væri milli samningsaðila til að hægt væri að halda áfram með samningaviðræðurnar, í viðtali við Kringvarpið 30. maí síðastliðinn. Hann hefur þó boðað samningsaðila til fundar nú klukkan tíu í fyrramálið, að því er kemur fram í frétt Kringvarpsins klukkan fjögur í dag.