Enski boltinn

Ten Hag gæti þurft að bíða lengi eftir á­kvörðun um fram­tíð sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Erik ten Hag kyssir bikarinn sem Manchester United vann á Wembley um síðustu helgi.
 Erik ten Hag kyssir bikarinn sem Manchester United vann á Wembley um síðustu helgi. AP/Kin Cheung

Erik ten Hag gerði Manchester United að enskum bikarmeisturum um síðustu helgi en hann veit samt ekki enn hvort hann verði áfram knattspyrnustjóri félagsins.

Það lítur út fyrir það að eigendur United ætli að láta hollenska knattspyrnustjórann bíða og jafnvel bíða lengi eftir því að þeir taki ákvörðun um framtíðina.

Heimildarmenn ESPN herma að í herbúðum Manchester United séu menn ekkert að flýta sér að komast að niðurstöðu. Hluteigandinn Sir Jim Ratcliffe og INEOS liðið hans munu taka sér tíma í að meta allt þætti í kringum félagið og fara vel yfir frammistöðuna á leiktíðinni.

Ten Hag á enn eitt ár eftir af samningi sínum og því verða Ratcliffe og félagar að reka hann ætli þeir að skipta um knattspyrnustjóra.

Samkvæmt upplýsingum ESPN þá er vaninn að endurskoðun sem þessi hjá INEOS fyrirtækinu taki í kringum fjóra daga í framkvæmd. Það fylgir þó sögunni að þeir hafa ekki sett sér neina tímapressu á að komast að niðurstöðu.

Enskir fjölmiðlar fjölluðu um að reka ætti Ten Hag en það var áður en hann vann Manchester City í úrslitaleik enska bikarsins.

Ten Hag er farinn í sumarfrí en fær mögulega símtal á næstunni þar sem hann fær að vita hvort hann fái að halda áfram eða hvort United leiti til manna eins og Thomas Tuchel, Mauricio Pochettino, Thomas Frank eða Kieran McKenna.

United endaði vissulega í áttunda sæti sem er lægsta sæti liðsins frá 1990. Liðið endaði líka í neðsta sæti í sínum riðli í Meistaradeildinni og það var enginn Evrópubolti eftir jól.

Ten Hag gæti hins vegar fengið að byrja næsta tímabil ef marka má fyrrnefnda frétt. Það er því óhætt að segja að hollenski stjórinn sé í furðulegri stöðu þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×