Í ákvörðun Hæstaréttar segir að Gray hafi með héraðsdómi verið sakfelldur fyrir brot gegn blygðunarsemi samkvæmt ákvæði almennra hegningarlaga fyrir að hafa fróað sér þar sem að hann var klofvega á hnjánum yfir líkama sextán ára stúlku og fengið sáðlát yfir andlit hennar þrátt fyrir að hún gerði honum ljóst að hún væri því mótfallinn.
Landsréttur leit málið alvarlegri augum
Landsréttur hafi staðfest sakfellingu leyfisbeiðanda en breytt heimfærslu brotsins og fallist á með ákæruvaldinu að háttsemin yrði heimfærð undir „önnur kynferðismök“ í skilningi ákvæðis hegningarlaga um nauðgun.
Hann hafi verið sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung og án samþykkis, haft önnur kynferðismök en samræði við konuna. Dómur Landsréttar er ítarlega reifaður í fréttinni hér að neðan:
Dugar þó að ekki hafi verið um hreina sýknu að ræða
Í ákvörðun Hæstaréttar segir að Gray hafi vísað um skilyrði fyrir áfrýjunarleyfi til lokamálsliðar nefndrar greinar laga um meðferð sakamála, þar sem mælt er fyrir um að hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skuli orðið við ósk hans um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til að breyta dómi Landsréttar.
Í ákvörðuninni segir að þó að ekki hafi verið um hreina sýknu að ræða í héraði verði að telja að fyrir hendi séu þær efnisástæður sem greinir í lokamálslið ákvæðisins.
Gray hafi vísað til þess að málið hafi verulega almenna þýðingu og að uppi sé lagaleg óvissa um hvernig heimfæra skuli þá háttsemi sem sannað þyki að hann hafi viðhaft til refsiákvæða og byggt á því að úrlausn Landsréttar sé röng þegar horft er til dómafordæma Hæstaréttar frá árunum 2013 og 2015.
Að virtum gögnum málsins verði að telja að úrlausn þess um heimfærslu háttsemi til refsiákvæða kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi laga um meðferð sakamála.