Fyrr í dag gerðu Norwich og Leeds markalaust jafntefli og rétt í þessu varð niðurstaðan svo sú sama hjá West Brom og Southampton.
Eitt þessara fjögurra liða spilar í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð en seinni undanúrslitaleikirnir eru í þessari viku og úrslitaleikurinn eftir tvær vikur.
Southampton-menn mættu með fimm manna varnarlínu í leikinn í dag og eru sjálfsagt glaðari en West Brom sem nú þarf að hafa betur á útivelli á föstudaginn.
Leikurinn í dag var ekki alveg færalaus en Alex McCarthy varði í tvígang vel frá Grady Diangana til að halda marki Southampton hreinu, og kollegi hans Alex Palmer varði frábærlega skot Ross Stewart sem breytti um stefnu á leiðinni að marki.