Innlent

Hindraði mann sem ætlaði að komast úr bíl við Bónusbúð

Jón Þór Stefánsson skrifar
Atvikið átti sér stað við verslun Bónus í Reykjanesbæ. Þessi mynd sýnir aðra verslun.
Atvikið átti sér stað við verslun Bónus í Reykjanesbæ. Þessi mynd sýnir aðra verslun. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á fimmtugsaldri hefur hlotið tveggja mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn til tveggja ára, í Héraðsdómi Reykjaness vegna atviks sem átti sér stað í lok janúar á þessu ári.

Manninum var gefið að sök að ráðast með ofbeldi að öðrum manni við verslun Bónus í Fitjum í Reykjanesbæ. Maðurinn sem varð fyrir árásinni sat í bílstjórasæti bíls og ætlaði sér úr honum, en árásarmaðurinn hindraði það með því að ýta framhurð bílsins á hann. Þá var árásarmanninum gefið að sök að slá hinn manninn þrisvar í höfuðið á meðan hann sat í bílstjórasætinu.

Fyrir vikið hlaut maðurinn sem varð fyrir árásinni ýmsa áverka.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir að aka bíl á bílastæði Bónus í Fitjum sviptur ökuréttindum. En það gerðist í desember á síðasta ári.

Hann mætti ekki fyrir dóm og voru forföll hans metin til jafns við játningu. Dómnum þótti sannað að maðurinn hefði framið brotin. Hann hefur nokkrum sinnum áður hlotið dóm bæði hérlendis og á Spáni.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn tveggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm. Þá er honum gert að greiða 120 þúsund krónur í ríkissjóð innan fjögurra vikna. Geri hann það ekki þarf hann að sitja í steininum í tíu daga.

Þar að auki er honum gert að greiða manninum sem varð fyrir árásinni 330 þúsund krónur í miskabætur og 260 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×