Íslenski boltinn

Allir vinir í skóginum: Sam­eigin­legt Fan Zone fyrir fyrsta leik Nadíu með Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nadía Atladóttir var kynnt sem nýr leikmaður Vals fyrir fyrsta leik karlaliðsins í Bestu deildinni.
Nadía Atladóttir var kynnt sem nýr leikmaður Vals fyrir fyrsta leik karlaliðsins í Bestu deildinni. Valur

Nadía Atladóttir, fyrrum fyrirliði bikarmeistara Víkings, spilar væntanlega sinn fyrsta leik með Val á morgun og auðvitað  lendir það þannig að leikurinn er á móti hennar gömlu félögum í Víkingi.

Nadía sagði upp samningi sínum á dögunum og Víkingar ákváðu að leyfa henni að fara frítt frá félaginu. Hún samdi í framhaldinu við Íslandsmeistara Vals.

Nadía átti mikinn þátt í uppgangi Víkingsliðsins í fyrrasumar þar sem liðið vann sér sæti í Bestu deildinni og skoraði meðal annars tvö mörk í sigrinum á Blikum í bikarúrslitaleiknum.

Hvorki Víkingar né Nadía ætla að gera leiðindamál úr þessum félagsskiptum og hafa talað vel um hvort annað í viðtölum.

Það eru líka greinilega allir vinir í skóginum því Valur og Víkingur hafa nú boðað sameiginlegt Fan Zone fyrir fyrsta leik Nadíu með Val.

Leikur þessi er leikur í Meistarakeppni KSÍ sem fer fram á N1-vellinum á Hlíðarenda annað kvöld.

Valskonur mæta þangað sem Íslandsmeistarar en Víkingar sem bikarmeistarar.

Stuðningsmenn félaganna geta rætt félagsskipti Nadíu og allt milli himins og jarðar þegar þeir mæta á stuðningsmannasvæðið, Fan Zone, á Hlíðarenda annað kvöld en það opnar klukkan 18.30.

Valsmenn auglýsa viðburðinn með dramatíski og glæsilegri mynd af umræddri Nadíu Atladóttur í treyju númer þrettán hjá Val og með Valstrefilinn á lofti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×