West Ham tók á móti Bayer Leverkusen í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar og veitti gestunum hörku viðureign, en tapaði að endingu 0-2. Jonas Hoffmann og Victor Boniface tryggðu Leverkusen sigurinn.
Mohamed Kudus fékk frábært færi til að taka forystuna á 10. mínútu en aumt skot hans endaði hjá markverðinum.
Eftir um tuttugu mínútna leik hitnaði í kolunum. Lucas Pacqueta sparkaði í Amine Adli og uppskar gult spjald, leikmenn beggja liða hópuðust að slysstaðnum og ýttu hvor í annan. Paqcueta verður í banni í næsta leik vegna uppsafnaðra spjalda en hann var stálheppinn að vera ekki rekinn af velli í þessum leik eftir harða tæklingu á Florian Wirtz á 24. mínútu.
Leverkusen var langtum hættulegra liðið en tókst ekki að setja boltann í netið í fyrri hálfleik, þrátt fyrir mörg tækifæri.
Það var þó aðeins tímaspursmál hvenær Leverkusen myndi skora, en þeir þurftu drjúgan tíma til þess.
Varamaðurinn Jonas Hoffmann skoraði loks á 83. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Victor Boniface.Boniface kom boltanum svo sjálfur í netið á fyrstu mínútu uppbótartíma eftir fyrirgjöf frá Jonasi Hoffmann.
Þeir tveir sáu til þess að Leverkusen vann 2-0 og liðið er í mjög álitlegri stöðu fyrir næsta leik sem fer fram í Lundúnum næsta fimmtudag.