Erlent

Fyrr­verandi Marvel-illmenni slapp við fangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Jonathan Majors etir að hann var fundinn sekur um líkamsárás í New York í desember. Refsing hans var ákveðin í dag. Hann sleppur við fangelsisvist en þarf að sækja sér meðferð.
Jonathan Majors etir að hann var fundinn sekur um líkamsárás í New York í desember. Refsing hans var ákveðin í dag. Hann sleppur við fangelsisvist en þarf að sækja sér meðferð. AP/Seth Wenig

Bandaríski leikarinn Jonathan Majors hlaut skilorðdóm og var skipað að sækja sér ráðgjöf fyrir að ráðast á fyrrverandi kærustu sína í dag. Hann átti allt að árs fangelsisdóm yfir höfði sér.

Auk sálfræðiráðgjafar þarf Majors að sækja meðferð fyrir ofbeldismenn. Hann komst þó undan fangelsisrefsingu.

Majors var fundinn sekur um líkamsárás gegn Grace Jabbari, þáverandi kærustu sinni, í desember. Strax í kjölfarið sparkaði myndasögurisinn Marvel honum úr hlutverki Kangs, persónunnar sem átti að vera aðalvarmenni kvikmynda- og sjónvarpsþáttaheimsins sem byggist á ofurhetjum fyrirtækisins.

Jabbari sagði fyrir dómi að árásin, sem átti sér stað í mars í fyrra, hefði valdið sér miklum líkamlegum og andlegum sársauka. Hún sakaði Majors um að ráðast á sig í aftursæti bíls sem þau voru farþegar í, löðrungað sig, snúið upp á handlegginn á henni og kreist fingur hennar þannig að hann brotnaði.

Majors hélt því fram að Jabbari hefði átt upptökin. Hún hafi tryllst af abrýðisemi eftir að hún las textaskilaboð frá annarri konu í símanum hans. Hann hafi aðeins reynt að ná símanum aftur og komast frá Jabbari.

Þrátt fyrir skilorðsdóminn nú er Majors ekki lausa allra mála enn. Jabbari höfðaði einkamál gegn honum fyrir dómstól í New York. Í því máli sakar hún hann um líkamsárás, barsmíðar, ærumeiðingar og um að valda sér tilfinningalegu tjóni. Hann hafi beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi sem stigmagnaðist á meðan á sambandi þeirra stóð frá 2021 til 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×