Borgarráð Reykjavíkurborgar hefur nú til umfjöllunar samning við eignarhaldsfélagið Perlu norðursins ehf. um afnot af rúmlega hundrað fermetra svæði norðvestan við Perluna sem félagið vill nýta undir færanlegt sýningarrými. Perla norðursins hefur á leigu húsnæði borgarinnar í Perlunni undir sýningar.
Sýningarrýmið á að hýsa eldfjallasýningu sem ber vinnuheitið „Inn í eldfjallið“ á ensku (e. Into the volcano). Í því eigi gestir að upplifa ferð að virku eldfjalli á Reykjanesi og þaðan niður á um tvö þúsund metra dýpi ofan í jörðina. Lagt er til að afnotasamningur verði tímabundinn í tilraunaskyni til þriggja ára samkvæmt bréfi eignaskrifstofu borgarinnar sem var lagt fyrir borgarráð í gær.
Perla norðursins stendur undir öllum kostnaði við framkvæmdina og greiðir borginni milljón krónur í leigu á ári samkvæmt samningnum.

Ferðast gegnum jarlög niður á kviku
Hugmynd að sýningunni sem kemur fram í frumdrögum sem voru lögð fyrir borgarráð með afnotasamningnum gengur út á að gestir upplifi að þeir fari niður í einhvers konar lyftu í gegnum jarðalagastaflann niður á um þúsund til tvö þúsund kílómetra dýpi.
Ferðin á að hefjast við gjósandi eldfjall með kvikustrókum, gosmekki og rennandi hrauni í grennd við Grindavík, annað hvort Fagradalsfjall eða Sundhnúkagíga. Hún á að taka sjö mínútur.
Á leiðinni niður fái gestir kynningu á ólíkum jarðlögum, þar á meðal sögulegum hraunlögum, en ferðin á að enda þegar komið er niður í glóandi kviku á meira en þúsund metra dýpi. Sjónvarpsskjáir eiga að sýna hvers konar jarðlög lyftan fer í gegnum og mælar sýna hversu djúpt hún er stödd, hvernig hitinn í berginu vex með auknu dýpi og skjálftavirkni.