Íslenski boltinn

Hall­grímur Mar ekki með í upp­hafi tíma­bils

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hallgrímur Mar hefur verið að glíma við erfið veikindi.
Hallgrímur Mar hefur verið að glíma við erfið veikindi. Vísir/Hulda Margrét

Hallgrímur Mar Steingrímsson verður ekki með KA þegar leikar hefjast í Bestu deild karla í knattspyrnu nú um helgina. Hann hefur verið að glíma við veikindi og verður ekki klár í fyrsta leik.

Frá þessu er greint á Akureyri.net. Þar segir að Hallgrímur Mar hafi verið veikur í níu daga. Fyrst fékk hann flensu og svo lungnabólgu í kjölfarið. Hann hefur legið á sjúkrahúsi í slétta viku og fengið sýklalyf í æð.

Hann fékk loks að fara heim í dag, miðvikudag, en ljóst er að hann verður ekki leikfær þegar KA mætir HK á sunnudaginn kemur.

„Ég er enn að reyna að átta mig á alvarleika þessara veikinda. „Get ekki alveg sagt til um það hvenær ég get byrjað aftur nákvæmlega, tíminn verður bara að leiða það í ljós,“ sagði Hallgrímur Mar í stuttu viðtali við Akureyri.net. Þar segir einnig að hann megi ekki byrja að æfa fyrr en eftir 10 til 14 daga.

Það er því ljóst að hann verður ekki með gegn HK og mun að öllum líkindum ekki með í fyrstu umferðum mótsins. Þetta er mikið áfall fyrir Hallgrím Mar sjálfan sem og KA en hann hefur verið besti maður liðsins undanfarin ár.

KA byrjar mótið á þremur heimaleikjum og þar er fólk í óðaönn að gera allt klárt, bæði innan vallar sem utan.

Leikur KA og HK hefst klukkan 17.00 á sunnudag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×