Bankman-Fried er stofnandi fallna rafmyntafyrirtækisins FTX, en hann var ákærður fyrir stórfelld fjársvik í tengslum við FTX, sem var um tíma þriðja stærsta rafmyntakauphöll heims. FTX fór á hausinn 2022. Bankman- Fried var meðal annars gefið að sök að hafa veitt milljörðum dollara af fjármunum viðskiptavina til annars fyrirtækis í hans eigu sem stóð í áhættufjárfestingum.
Hinn 32 ára Bankman-Fried var fundinn sekur um fjársvik og peningaþvætti í nóvember á síðasta ári, en í dag varð ljóst að hann myndi verja næstu 25 árum bak við lás og slá. Verjendur hans höfðu lagt til fimm til sex og hálfs árs fangelsi, á meðan saksóknarar í málinu fóru fram á 50 ára fangelsisdóm.
Fyrir dómi í dag viðurkenndi Bankman-Fried að hafa tekið „röð slæmra ákvarðana“ sem ásæki hann á hverjum degi. Hann baðst þó ekki beinnar afsökunar á brotum sínum. Þá höfðu verjendur hans haldið því fram að varna hefði mátt falli FTX ef meiri tími hefði verið til stefnu.
Þessu hafnaði dómarinn í málinu og sagði Bankman-Fried ekki hafa sagt eitt iðrunarorð um glæpi sína.