Körfubolti

KR-ingar geta endur­heimt sæti meðal þeirra bestu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Erik Bragason er einn af ungu strákunum í KR-liðinu.
Lars Erik Bragason er einn af ungu strákunum í KR-liðinu. Vísir/Bára

Karlalið KR í körfubolta kemst aftur upp í Subway deild karla með sigri á Ármanni í Laugardalshöllinni í kvöld.

Lokaumferð 1. deildar karla fer öll fram á sama tíma. KR er með tveggja stiga forskot á ÍR-inga sem eru þeir einu sem geta náð Vesturbæingum. ÍR verður ofar en KR, endi þau jöfn, þökk sé innbyrðis viðureignum.

Leikur KR-inga hefst klukkan 19.15. Vinni KR lið Ármanns, sem er níu sætum neðar í töflunni, þá tryggir KR-liðið sér deildarmeistaratitilinn og um leið sæti í Subway deildinni á 2024-25 tímabilinu.

Átta næstu lið komast í úrslitakeppni um hitt lausa sætið. Það þýðir að liðin í öðru til níunda sæti eru á leið í úrslitakeppnina.  Ármann er í baráttunni við Selfoss um síðasta sætið en liðin eru með jafnmörg stig en Selfoss er betri innbyrðis.

KR féll úr efstu deild 9. mars í fyrra eða fyrir 382 dögum síðan. Þetta var fyrst tímabil KR utan efstu deildar síðan 1961.

KR tapaði tveimur af fyrstu níu leikjum sínum á tímabilinu en hefur nú unnið tólf leiki í röð eða alla leiki sína frá 2. desember á síðasta ári. Nimrod Hilliard IV kom til liðsins um áramótin og hefur enn ekki tapað leik með KR. Hann er með 23,2 stig og 7,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Jakob Örn Sigurðarson er þjálfari KR en hann var aðstoðarþjálfari Helgi Más Magnússonar í fyrra. Þetta er fyrsta tímabil Jakobs sem aðalþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×