Handbolti

KA valtaði yfir Víking í frestuðum leik

Siggeir Ævarsson skrifar
Einar Rafn Eiðsson gerði sér lítið fyrir og skoraði tíu mörk í dag
Einar Rafn Eiðsson gerði sér lítið fyrir og skoraði tíu mörk í dag Vísir/Hulda Margrét

KA tók á móti Víkingi í dag í Olís-deild karla en leiknum var frestað í gær vegna veðurs. Eftir ágætis byrjun gestanna tóku heimamenn öll völd á vellinum.

Víkingar byrjuðu leikinn ágætlega og komust í 1-5 eftir tíu mínútna leik. Þá tóku KA-menn leikhlé og sneru leiknum algjörlega við. Staðan 14-10 í hálfleik en eftir það tóku KA menn öll völd á vellinum.

Gestirnir skoruðu aðeins átta mörk í seinni hálfleik en KA settu 19 stykki. Talnaglöggir lesendur átta sig á því lokatölur leiksins urðu þar af leiðandi 33-18 KA í vil. Fimmtán marka stórsigur KA staðreynd.

Einar Rafn Eiðsson fór mikinn í sókn KA og skoraði tíu mörk í 14 skotum. Dagur Árni Heimisson kom næstur með sex. Þá átti Bruno Bernat góðan leik í markinu og varði 14 af því 31 skoti sem hann fékk á sig. 

Hjá Víkingum var Jóhann Reynir Gunnlaugsson langmarkahæstur með sex mörk.

Með sigrinum lyftir KA sér upp um eitt sæti, úr því 8. í 7. og fara einu stigi fram úr Stjörnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×