Enski boltinn

Neitar að spila fyrir enska lands­liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ben White í leik með Arsenal í Meistaradeildinni.
Ben White í leik með Arsenal í Meistaradeildinni. Getty/Robbie Jay Barratt

Gareth Southgate vildi velja Ben White í enska landsliðshópinn en Arsenal maðurinn vill ekki spila með landsliðinu.

Southgate valdi 25 manna hóp fyrir komandi vináttulandsleiki við Brasilíu og Belgíu og White er skiljanlega ekki í hópnum.

Jarrad Branthwaite hjá Everton og Anthony Gordon hjá Newcastle eru aftur á móti í hópnum í fyrsta sinn.

Bakverðirnir Kieran Trippier, Trent Alexander-Arnold og Reece James eru allir að glíma við meiðsli og því hefði vissulega verið þörf fyrir White í hópnum.

White var í HM-hópnum fyrir mótið í Katar árið 2022 en yfirgaf hópinn vegna persónulegra ástæðna. Sögusagnir voru um rifrildi milli hans og landsliðsþjálfarans Southgate og aðstoðarmanns hans Steve Holland.

„Ég og John McDermott, fengum símtal frá Edu [yfirmanni knattspyrnumála hjá Arsemal] í síðustu viku og hann tjáði okkur að Ben vildi ekki vera valinn í enska landsliðið að þessu sinni,“ sagði Gareth Southgate á blaðamannafundi.

„Frá mínum bæjardyrum séð þá er það mikil synd. Hann er leikmaður sem ég er virkilega hrifinn af. Hann fór með okkur á EM þegar hann var hjá Brighton og við völdum hann líka í HM-hópinn,“ sagði Southgate.

„Ég talaði við hann eftir HM í Katar af því að ég vildi velja hann aftur í hópinn en hann var þá hikandi. Ég veit ekki alveg af hverju en ég verð að virða það. Ég vil samt halda dyrunum opnum fyrir hann því hann er góður leikmaður. Ég tel að hann sé leikmaður sem geti skipt máli fyrir enska landsliðið,“ sagði Southgate.

Þessar fréttir berast af Ben White í sömu viku og hann framlengdi samning sinn við Arsenal til ársins 2028.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×