Enski boltinn

Snýr aftur og fyrsta verk­efnið er að finna eftir­mann Klopp

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Michael Edwards, Klopp og Mike Gordon á góðri stundu.
Michael Edwards, Klopp og Mike Gordon á góðri stundu. John Powell/Getty Images

Michael Edwards mun snúa aftur til Liverpool í sumar. Hann var áður yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu en færist nú ofar í fæðukeðjunni og á að aðstoða félagið við að finna eftirmann Jürgen Klopp og móta nýjan leikmannahóp.

Edwards starfaði lengi vel fyrir Liverpool, fyrst í greiningadeild félagsins og svo sem yfirmaður knattspyrnumála, áður en hann sagði starfi sínu lausu árið 2022. Síðan þá hefur hann verið ítrekað orðaður við endurkomu og tókst eigendum félagsins loks að sannfæra hann um að snúa aftur.

Edwards, sem var til að mynda driffjöðurin í því að fá Mohamed Salah á sínum tíma, mun ekki sinna sama starfi og áður. Til þess kemur góðvinur hans Richard Hughes sem hefur undanfarin ár starfað fyrir Bournemouth. 

Edwards færist því ofar í stjórnendakeðjunni og verður yfir öllu tengdu knattspyrnu hjá félaginu. Fyrsta verkefni hans er að finna nýjan þjálfara en Klopp hefur gefið út að hann muni stíga til hliðar að tímabilinu loknu.

Xabi Alonso, sem er við það að gera Bayer Leverkusen að þýskum meisturum, hefur verið orðaur við félagið. Hann lék með því við góðan orðstír áður en hann fór og raðaði inn titlum Real Madríd og Bayern München. Þá hefur hinn 39 ára gamli Rúben Amorim, þjálfari Sporting í Portúgal, einnig verið orðaður við starfið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×