Enski boltinn

Birti mynd­band af markinu sínu í hálf­leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Datro Fofana fagnar marki sínu gegn West Ham United.
David Datro Fofana fagnar marki sínu gegn West Ham United. getty/Vince Mignott

Leikmaður Burnley var svo ánægður með mark sem hann skoraði gegn West Ham United að hann deildi myndbandi af því í hálfleik í leiknum í gær.

David Datro Fofana kom Burnley yfir gegn West Ham með glæsilegu marki á 11. mínútu. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Konstantinos Mavropanos, miðvörður West Ham, svo sjálfsmark og Burnley leiddi því 0-2 í hálfleik.

Fofana virðist hafa nýtt tímann í hálfleiknum til að fara í símann því hann endurtísti myndbandi af markinu sínu.

Færslan var hins vegar fjarlægð skömmu seinna vegna réttindamála.

Því miður fyrir Fofana og Burnley dugði glæsimark hans ekki til sigurs því West Ham kom til baka í seinni hálfleik og jafnaði í 2-2 sem urðu lokatölur leiksins.

Fofana, sem er 21 árs Fílbeinsstrendingur, er í láni hjá Burnley frá Chelsea en hann kom til liðsins í janúar. Hann hefur skorað þrjú mörk í sjö leikjum fyrir Burnley.

Staða Jóhanns Berg Guðmundssonar og félaga í Burnley er erfið en þeir eru í nítjánda og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tíu stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×