Enski boltinn

Við­ræður í fullum gangi um endur­komu Edwards til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp með þeim Michael Edwards og Mike Gordon á góðri stundu.
Jürgen Klopp með þeim Michael Edwards og Mike Gordon á góðri stundu. Getty/John Powell

Liverpool er að missa knattspyrnustjórann Jürgen Klopp en gæti aftur á móti verið að endurheimta Michael Edwards í hlutverk yfirmanns knattspyrnumála.

Edwards er maðurinn á bak við yfirhalninguna á stefnu Liverpool í leikmannamálum á sínum tíma og það var hann sem stakk upp á Klopp sem knattspyrnustjóra árið 2015. Hann yfirgaf félagið fyrir tveimur árum síðar.

Erlendir miðlar eins og Sky Sports og ESPN hafa heimildir fyrir því að Edwards sé nú í viðræðum við bandarísku eigendur félagsins.

Það hefur gengið illa að finna mann í hans starf en eftirmennirnir Julian Ward og Jorg Schmadtke entust báðir í minna en tólf mánuði.

Fenway Sports Group (FSG), eigandahópur Liverpool, vill að Edwards stýri málum á ný en undir honum verði nýr íþróttastjóri. Yfirmaður knattspyrnumála hjá Bournemouth, Richard Hughes, þykir mjög líklegur í það starf.

Edwards hefur gefið það út að hann hafi engan áhuga á því að fara aftur inn í það álag sem fylgir gamla starfinu en er opinn fyrir meiri yfirmannsstöðu.

Edwards hefur verið boðið að vinna fyrir bæði Chelsea og Manchester United síðan hann yfirgaf Liverpool en hefur hafnað þeim tilboðum.

Þetta er líka í annað skiptið á stuttum tíma sem Liverpool leitar til Edwards en hann er sagður hafa meiri áhuga eftir að Liverpool kom með breytt og betra tilboð.

Vegna þess að Liverpool er að missa knattspyrnustjóra sinn í sumar þá er þetta eitt mikilvægasta sumar félagsins í langan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×