Enski boltinn

Klopp varði Trent en Guardiola hleypti brúnum

Sindri Sverrisson skrifar
Jürgen Klopp segir ekkert út á ummæli Trents Alexander-Arnold að setja.
Jürgen Klopp segir ekkert út á ummæli Trents Alexander-Arnold að setja. Getty/Chris Brunskill

Jürgen Klopp úskýrði og varði ummæli lærisveins síns, Trents Alexander-Arnold, á blaðamannafundi í dag í aðdraganda uppgjörsins við Manchester City á sunnudaginn.

Trent fullyrti í viðtali í vikunni að titlar þýddu meira fyrir Liverpool-fólk en City-fólk og sagði það vera vegna fjárhagslegrar stöðu félaganna.

Erling Haaland svaraði þessu meðal annars með því að skjóta á Trent og segja að hann þekkti ekki þá tilfinningu að vinna þrennu.

Klopp og Pep Guardiola voru svo að sjálfsögðu spurðir út í þetta mál á blaðamannafundi í dag, og var ljóst að Guardiola hafði lítinn áhuga á því að svara. Hann lét nægja að óska Trent skjóts bata en bakvörðurinn hefur átt við meiðsli að stríða.

Klopp undirstrikaði hins vegar að Liverpool-menn bæru mikla virðingu fyrir keppinautum sínum, sjálfsagt í von um að ummæli Trents yrðu ekki til þess að gíra City-menn sérstaklega upp á sunnudaginn.

„Ég veit ekki hversu oft við höfum sagt hve mikla virðingu við berum fyrir City. Pep er besti stjóri í heimi. Þeir eru með ótrúlega leikmenn. Í augnablikinu eru þeir með bestu níuna, Haaland, sem skorar þegar hann vill. Kevin De Bruyne fer í sögubækurnar með mönnum eins og Steven Gerrard. Phil Foden er besti enski leikmaðurinn í dag. Við sýnum því allir virðingu.

Trent sýnir þessu virðingu. En hann er fæddur í Liverpool. Hann stóð á ruslatunnunum [fyrir utan Melwood-æfingasvæðið til að horfa á leikmenn æfa þegar hann var strákur]. Hvað finnst manni í slíkri stöðu? Eitt af slagorðum okkar, sem ég elska, er „þetta hefur meiri þýðingu“. Þetta hefur meiri þýðingu fyrir okkur. Þetta félag er okkur sérstakt. Ef okkur líður þannig, af hverju ættum við ekki að segja það?

Svona líður honum bara. Svona líður okkur og ég hef ekkert út á það að setja. Ég er viss um að hann sýndi líka mikla virðingu. Síðastliðinn áratug er Manchester City sigursælasta lið Englands og jafnvel Evrópu. Þeir eru með rosalega afrekaskrá. Það hefur mikla þýðingu fyrir þeirra fólk. Við megum samt halda það sem við viljum. Það var ekkert að því sem Trent sagði,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×