Enski boltinn

Ten Hag segir að ekkert lið hefði getað glímt við meiðslavandræði United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ef og hefði. Erik ten Hag segir að mikil meiðsli hafi gert Manchester United erfitt fyrir í vetur.
Ef og hefði. Erik ten Hag segir að mikil meiðsli hafi gert Manchester United erfitt fyrir í vetur. getty/James Gill

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að staða liðsins væri allt önnur ef ekki hefði verið fyrir öll meiðslin sem hafa hrjáð leikmenn þess á tímabilinu.

Mikil meiðsli hafa verið í herbúðum United í vetur og fyrir leikinn gegn Everton á morgun eru til að mynda tíu leikmenn frá.

Ten Hag hefur stýrt United í hundrað leikjum en 61 þeirra hefur unnist. Hollendingurinn telur að tölfræðin væri mun betri ef meiðslin hefðu ekki sett strik í reikning United.

„Þetta segir að við erum á réttri leið. Ímyndaðu þér ef við hefðum haft fleiri leikmenn til taks og ekki þurft að glíma við áföll og meiðsli. Þetta gætu auðveldlega verið 75 sigrar og það segir hversu björt framtíð liðsins er,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi í dag.

„Aldursdreifingin á hópnum er góð. Ungir leikmenn og leikmenn á millialdri. Ímyndaðu þér ef þeir hefðu verið til taks hefðum við auðveldlega getað unnið 75 leiki af hundrað. Ekkert lið getur glímt við svona mörg meiðsli. Ég held að við höfum spilað eftir okkar bestu getu ef þú tekur inn í reikninginn hvaða leikmenn hafa verið til tals. Við höfum saknað svo margra lykilmanna á tímabilinu.“

Ten Hag segist jafnframt vera handviss um að hann sé að gera góða hluti með lið United sem er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Við erum á réttri leið þegar leikmennirnir eru klárir. Toppfótbolti snýst um að vinna leiki,“ sagði Ten Hag.

„Við vinnum að því að spila betur og vilja spila á fullri getu. En það gerir þér erfitt fyrir að vera án leikmanna í lykilstöðum og hefur áhrif á hvernig við viljum spila.“

Sem fyrr sagði er næsti leikur United gegn Everton á morgun. Á sunnudaginn eftir viku mætir United svo Liverpool í ensku bikarkeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×