Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli miklar tekjur á mann og góða stjórnarhætti sem sambærilegir séu við lönd með AAA og AA lánshæfiseinkunn.
Ísland hafi byggt upp umtalsverðan viðnámsþrótt sem dragi úr næmni gegn ytri áföllum og áhættu í greiðslujöfnuði svo sem mikinn gjaldeyrisforða og góða sjóðsstöðu ríkissjóðs, sem hafi verið lækkuð á undanförnum árum.
Segir ennfremur að til styrkleika teljist verulegar lífeyrissjóðseignir, traust fjármálakerfi og sterkir efnahagsreikningar einkageirans. Smæð hagkerfisins, einsleitni útflutnings og háar opinberar skuldir halda aftur af einkunninni.
„Aukin tiltrú á markverða og viðvarandi lækkun í skuldahlutfalli hins opinbera, meiri leitnivöxtur þjóðarbúsins og/eða vísbendingar um aukna fjölbreytni hagkerfisins sem minnka næmni Íslands gagnvart ytri áföllum gætu haft jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að markvert verra skuldahlutfall hins opinbera, til dæmis vegna viðvarandi slaka í ríkisfjármálum, eða alvarlegt efnahagsáfall, til dæmis vegna skarprar leiðréttingar á fasteignamarkaði gæti haft neikvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.