Enski boltinn

Rashford: Þá verð ég bara að biðja um meiri mann­gæsku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford hefur tjáð sig um þá hörðu gagnrýni sem hann hefur orðið fyrir.
Marcus Rashford hefur tjáð sig um þá hörðu gagnrýni sem hann hefur orðið fyrir. Getty/James Baylis

Marcus Rashford segir að það sé aldrei hægt að efast um hollustu hans til Manchester United. Enski framherjinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir spilamennsku sína á þessu tímabili.

Til að bæta gráu ofan á svart þá þurfti knattspyrnustjórinn Erik ten Hag að taka á agavandamálum leikmannsins þegar hann mætti ekki á æfingu eftir skemmtiferð á næturklúbb í Belfast.

Rashford skoraði þrjátíu mörk á síðustu leiktíð en hefur aðeins skorað fimm mörk í öllum keppnum á þessari leiktíð. Hann sjálfur telur sig hafa fengið ósanngjarna meðferð frá fjölmiðlum.

„Þegar ég geri mistök, þá er ég sá fyrsti til að rétta upp hendina og viðurkenna að ég þurfi að gera betur. En ef þú efast um hollustu mína til Manchester United þá verð ég að láta í mér heyra,“ sagði Marcus Rashford við Players' Tribune.

„Ég ólst hér upp. Ég hef spilað fyrir þetta félag síðan ég var strákur. Fjölskylda mín hafnaði miklum peningum þegar ég var krakki svo að ég gæti spilað fyrir þetta félag,“ skrifaði Rashford.

„Þegar þú ferð að efast um hollustu mína til þess félags og ást mína á fótboltanum þá verð ég bara að biðja um meiri manngæsku,“ sagði Rashford.

Rashford var lofaður í hástert fyrir baráttu sína fyrir fátæk börn á Manchester svæðinu. Hann sá öðrum fremur til þess að þau fengu áfram mat í skólanum. Rashford telur að sú vinna hans hafi búið til meiri gagnrýni.

„Ég var bara að reyna að nota mína rödd til þess að sjá til þess að börnin þurfi ekki að svelta. Ég veit sjálfur nákvæmlega hvernig það er. Af einhverjum ástæðum þá virtist það fara í taugarnar á sumu fólki,“ sagði Rashford.

„Það lítur út fyrir það að þau hafi hreinlega verið að bíða eftir mannlegu atviki svo þau geti bent fingrinum á mig og sagt: Sjáið. Svona er hann í alvörunni,“ sagði Rashford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×