Enski boltinn

Haaland sló met sem enginn vill eiga

Smári Jökull Jónsson skrifar
Erling Haaland fór illa með nokkur færi í leiknum í gær.
Erling Haaland fór illa með nokkur færi í leiknum í gær. Vísir/Getty

Manchester City og Chelsea gerðu 1-1 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í gær og missti lið City þar með af tækifærinu til að koma sér aðeins tveimur stigum frá toppliði Liverpool. Norðmaðurinn Erling Haaland sló met í leiknum sem hann hefði eflaust viljað sleppa.

Lengi vel leit út fyrir að Chelsea myndi leggja Manchester City að velli á Ethihad-leikvanginum í gær en Spánverjinn Rodri jafnaði metin á 83. mínútu leiksins. Lið City fékk fjölmörg færi til að skora fleiri mörk í leiknum en urðu að sætta sig við að koma boltanum aðeins einu sinni í netið.

Enginn fékk fleiri færi en markahrókurinn Erling Braut Haaland. Norðmaðurinn fór í nokkur skipti illa að ráði sínu og boltinn vildi hreinlega ekki fara í netið.

„Ég er ekki rétti aðilinn til að gefa framherjum ráð“

Þegar tölfræðin var skoðuð eftir leikinn kom í ljós að Haaland hafði slegið met. Líklega langar hann lítið að eiga þetta met en hann er nú sá leikmaður með hæsta XG (Expected Goals) í einum leik án þess að skora. XG er tölfræði sem sýnir hversu mörg mörk leikmenn ættu að skora miðað við þau færi sem þeir fá í leik. 

Haaland átti níu skot á markið í leiknum og misnotaði þrjú færi sem samkvæmt tölfræðinni teljast góð. Hann endaði með XG upp á 1,71 sem er það mesta hjá einum leikmanni á tímabilnu án þess að skora.

Knattspyrnustjórinn Pep Guardiola vildi þó ekki kenna Haaland um stigin sem fóru í súginn í leiknum í gærkvöldi.

„Það er gott að eiga níu skot á markið og næst mun hann skora,“ en Haaland hefur skorað 16 deildamörk á tímabilinu.

„Ég var leikmaður í ellefu ár og skoraði ellefu mörk. Þvílík tölfræði! Eitt mark á tímabili. Ég er ekki rétti aðilinn til að gefa framherjum ráð,“ sagði Guardiola á léttum nótum.

„Við erum að búa til færin, við fengum færi og hann mun skora næst. Ég áfellist hann ekki, þetta eru manneskjur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×