Fótbolti

Benóný Breki tryggði KR sigur í uppbótartíma

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Benóný Breki Andrésson reyndist hetja KR-inga í kvöld.
Benóný Breki Andrésson reyndist hetja KR-inga í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

KR vann dramatískan 2-3 sigur er liðið heimsótti HK í fyrstu umferð Lengjubikar karla í knattspyrnu í kvöld.

KR og HK leika í riðli 3 í A-deild Lengjubikarsins. Keppni í Lengjubikar karla hófst í gær, en leikur liðanna í kvöld var fyrsti leikur þeirra riðils.

Benóný Breki Andrésson kom KR-ingum yfir strax á sjöundu mínútu leiksins og reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins. Staðan því 0-1 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Arnþór Ari Atlason jafnaði hins vegar metin fyrir HK á 60. mínútu, en Sigurður Bjartur Hallson kom gestunum yfir á ný með marki á 79. mínútu.

Forysta KR-inga entist þó ekki lengi því Birkir Breki Burknason jafnaði metin fyrir HK á 82. mínútu og stefndi allt í að liðin myndu skipta stigunum á milli sín.

Það var svo ekki fyrr en að komið var í uppbótartíma sem sigurmarkið leit loks dagsins ljós, en þar var á ferðinni Benóný Breki Andrésson með sitt annað mark sem tryggði KR-ingum dramatískan sigur.

KR-ingar eru þar með komnir með þrjú stig í riðlinum, en HK er enn án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×