Sport

Littler svarar Van Gerwen: „Kominn í deild stóru strákanna“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Keppendurnir átta sem taka þátt í úrvalsdeildinni í pílukasti (frá vinstri): Peter Wright, Rob Cross, Nathan Aspinall, Luke Humphries, Michael van Gerwen, Michael Smith, Gerwyn Price og Luke Littler.
Keppendurnir átta sem taka þátt í úrvalsdeildinni í pílukasti (frá vinstri): Peter Wright, Rob Cross, Nathan Aspinall, Luke Humphries, Michael van Gerwen, Michael Smith, Gerwyn Price og Luke Littler. getty/David Davies

Píluungstirnið Luke Littler gaf lítið fyrir skot Michaels van Gerwen og svaraði Hollendingnum fullum hálsi.

Littler þreytti frumraun sína í úrvalsdeildinni í pílukasti í gær. Hann vann Luke Humphries, sem hann tapaði fyrir í úrslitum HM í ársbyrjun, 6-2, en tapaði fyrir Michael Smith, 6-5. Van Gerwen tapaði, 6-5, fyrir Smith sem hrósaði sigri á fyrsta keppniskvöldi tímabilsins.

Fyrir keppniskvöldið bauð Van Gerwen Littler velkominn í þeirra bestu og sagði þeir myndu ekki passa upp á hann.

„Auðvitað ekki. Velkomin í hóp stóru strákanna. Þeir dagar eru liðnir. Hann er ekki lengur í unglingaflokki. Núna þegar við þurfum að berjast á móti hvor öðrum á sviðinu getum við ekki sýnt neina miskunn. Þú verður að berjast í hverjum legg, hverjum leik. Allir spila fyrir sjálfa sig,“ sagði Van Gerwen.

Ummæli hans voru borin undir hinn sautján ára Littler sem svaraði fyrir sig fullum hálsi.

„Ég er klárlega einn af þeim núna. Ég er kominn í deild stóru strákanna. Ég veit hvað fylgir því. Ég get tekist á við þetta allt sjálfur. Ef ekki tala ég við mömmu og pabba, ef allt fer á versta veg. En ég er nógu þroskaður til að vita hvað gerist. Þetta er það sem ég skrifaði upp á; að spila við þá allra bestu. Einhvern veginn verð ég að vinna þá í hverri viku,“ sagði Littler.

Honum hefur gengið vel síðan hann sló í gegn á heimsmeistaramótinu og vann meðal annars Bahrain Darts Masters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×