Í myndbandi úr öryggismyndavél sem hann birti á Facebook í gær sjást tveir ungir karlmenn brjótast inn í verkfærageymsluna þeirra, raða ránsfengnum rólega á kerru og spjalla saman á meðan.
„Það er eins og þeir séu í nammibúð, velja hvað þeir vilja í rólegheitum, spjalla saman og taka allt og fara með út,“ segir Guðmundur í samtali við fréttastofu.
Rúmrar milljónar króna tjón
Þetta er í annað sinn á rúmum mánuði sem brotist hefur verið inn í aðstöðu Guðmundar og félaga. Síðast var brotist inn til þeirra á Vesturgötu í vesturbæ Reykjavíkur þar sem þeir voru við vinnu. Hann telur tjónið þá hafa verið upp á eina og hálfa til tvær milljónir. Í þetta skipti hafi tjónið numið rúmri milljón króna.

Guðmundur segir innbrot af þessu tagi vera alltof algeng og að fólk sé orðið þreytt á þessu.
„Ég er búinn að fá nokkur símtöl frá iðnaðarmönnum í kringum mig sem eru búnir að lenda í þessu. Rafvirki hringdi í mig í dag. Það var sjöhundruð þúsund kall hjá honum fyrir einhverjum tveimur vikum. Einhver annar pípari varð fyrir þremur tjónum í fyrra. Þetta er endalaust,“ segir hann.
Aldrei hægt að fá allt bætt
Guðmundur segir að það fyrsta sem sé gert í svona aðstæðum sé að hafa samband við lögregluna og skila til hennar tjónaskýrslu. Lögreglan kemur skýrslunni síðan til tryggingafélaga. Aldrei sé hægt að fá allt bætt og tekjutapið vegna verkstopps geti einnig verið mikið.
Hann segir vandamálið vera orðið mjög alvarlegt og að iðnaðarmannastéttin öll sé komin með nóg af þessu.
„Þetta eru bara ungir litlir dópistar sem eru gerðir út af örkinni. Það er endalaust verið að stela af málurum, pípurum og rafvirkjum. Það er rosaleg þreyta komin í mannskapinn,“ segir Guðmundur.