Pípulagningamenn hafa unnið að því að koma heitu vatni á Grindavíkurbæ og í gær var það að mestu komið á vesturhlutann. Í dag verður unnið að austurhlutanum að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, farið inn í hús og ástandið kannað.
„Heitu vatni var hleypt inn á austurbæinn í gærkvöldi og því verkefni er fylgt eftir í dag. Af öryggisástæðum var það ekki gert í nótt vegna þess að þetta svæði er ótryggt og mikil hætta þarna á sprungum.“
Greint var frá því í gær að nýr sigdalur hefði myndast í austurhluta bæjarins. Hann er allt að kílómeter á breidd og enn að síga og víkka. Hætta í þeim hluta bæjarins er töluverð þar sem nýjar sprungur hafa myndast og eldri stækkað. Sérfræðingahópur á vegum almannavarna vinnur að kortlagningu á þeim. „Og er að fara yfir þær sprungur sem þarna eru og eins að meta áhættu og undirlag.“
Hann segir einungis þá sem eiga brýnt erindi inn í bæinn fara þangað inn.
„Þegar ég segi brýnt erindi á ég við viðbragðsaðila og þá sem koma þarna að björgunarstarfi. Þetta er auðvitað bara stór verðmætabjörgun sem er í gangi núna, það er að segja að halda hita og rafmagni á bænum. Það er fyrsta skref í verðmætabjörgun.
Úlfar segir næstu skref í verðmætabjörgun á til dæmis eigum fólks til skoðunar.
„En eins og staðan er í augnablikinu þá erum við ekki komin á þann stað í okkar aðgerðum.“
Hending að sprungan opnaðist ekki í miðjum bænum
Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofu Íslands, sagði á íbúafundi í gær að búast mætti við öðru kvikuinnskoti eftir jafnvel mánuð eða svo. Úlfar segir orð vísindamanna um að ekki sé búandi í Grindavík á næstu mánuðum og jafnvel árum ekki koma á óvart.
„Ég held að hending hafi ráðið því að þessi gossprunga næst bænum hafi opnast á þeim stað en ekki inni í miðjum bænum og ef hún hefði opnast í miðjum bænum væri í sjálfu sér ekki mikið eftir af Grindavíkurbæ,“ segir Úlfar.