Í nýrri frétt á vef Veðurstofunnar kemur fram að nýjar sprungur gætu komið í ljós á yfirborði næstu daga. Á vefmyndavélum sést að dregið hefur úr hraunflæði upp úr gossprungunum sem opnuðust í gær.
„Flæðið úr syðri sprungunni sem opnaðist á hádegi í gær rétt við bæjarmörkin virðist hafa stöðvast. Megnið af hraunflæðinu er í suðvestur eftir leiðigarðinum sem reistur var og virðist hafa sannað gildi sitt.“
Erfitt sé að leggja mat á hversu lengi þetta gos muni standa. Dregið hefur úr skjálftavirkninni og samkvæmt GPS mælingum dregur úr hreyfingum á svæðinu. Áfram mælast þó hreyfingar syðst í kvikuganginum undir Grindavík.
Hættumatskort óbreytt
Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og er í beinu sambandi við almannavarnir og viðbragðsaðila á svæðinu um framvindu atburðarins.
Vísindafólk hittist á samráðsfundi á vegum Veðurstofunnar í morgun þar sem farið var yfir gögn sem safnast hafa í tengslum við eldgosið.
„Næstu dagar fara áfram í mælingar og öflun frekari gagna ásamt greiningu þeirra. Úr þeim gögnum er m.a. verið að vinna reiknilíkön til að átta sig betur á aðdraganda atburðarins og leggja mat á líklega framvindu eldgossins. Eins er verið að bera saman atburðarrásina 18. desember við eldgosið sem hófst í gær til að auka skilning á umbrotunum á svæðinu og leggja mat á hvaða sviðsmyndir eru líklegastar í framhaldinu,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumatskort byggt á nýjustu gögnum sem er óbreytt frá því síðast. Kortið gildir til kl. 19:00, miðvikudaginn 17. janúar að öllu óbreyttu.
