Vísir greindi frá því í vikunni að netverslun á svokölluðum Singles Day hafi dregist saman um tæp 40% milli ára og í verslun hafi samdrátturinn veruð tæp 16%. Þetta var niðurstaða rannsóknar Rannsóknarseturs verslunarinnar sem birti tilkynningu á heimasíðu sinni þar sem sagði að dagur einhleypra hefði hrunið í vinsældum.
Töldu menn hjá setrinu líklega skýringu þá að dagurinn hitti á laugardag á síðasta ári en hann er fastsettur 11. nóvember ár hvert. Heildarverslun á Singles Day nam 984 milljónum króna en föstudaginn fyrir Singles Day nam heildarverslun 1,02 milljarði króna og virðast Íslendingar þannig viljugri til að strauja kortið á föstudögum. 11. nóvember 2022 nam netverslun 1,6 milljarði króna.
„Það er vitað mál og í takt við allar spár að salan á sjálfum degi einhleypra, sem árlega er 11. nóvember, yrði minni árið 2023. Það á sér þær eðlilegu skýringar að dagurinn kom nú upp á laugardegi og er alvitað að sá vikudagur er alltaf erfiðastur þegar kemur að netverslun,“ segir í yfirlýsingu Brynja Dan.
„Þar sem við erum alltaf á tánum brást ég að sjálfsögðu við þeirri staðreynd í samstarfi við þau fjölmörgu fyrirtæki sem tóku þátt í deginum. Singles Day tilboðin urðu því virk föstudaginn 10. nóvember og voru virk út sunnudaginn 12. nóvember.“
Brynja segir þessa breytingu hafa verið auglýsa vel til þess að neytendur gætu notið tilboðanna og sparað nokkra aura. Í grunninn sé rétt að salan hafi hrunið á sjálfum degi einhleypra.
„Þess má samt geta að salan á þeim tilboðum sem dagur einhleypra og samstarfsfyrirtækin buðu neytendum upp á hrundi bara alls ekki neitt og er dagurinn hreinlega ennþá með virkni á við ekkert minna en tvíhleypu,“ skrifar Brynja í yfirlýsingunni.
„Í því samhengi er vert að koma á framfæri að velta Netgíró var hærri þessa þrjá daga árið 2023 en sömu daga árið á undan.“
Hún segir að henni þyki afar vænt um þetta verkefni og vonast eftir vandaðri og sanngjarnri umfjöllun.