Valur fékk Stjörnuna í heimsókn að Hlíðarenda og það var aldrei spurning hvort liðið færi heim með sigur í farteskinu. Valur var betra á öllum sviðum og vann á endanum öruggan 10 marka sigur, lokatölur 31-21.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í liði Vals með 7 mörk. Þar á eftir kom Thea Imani Sturludóttir með 5 mörk. Í markinu vörðu þær Hafdís Renötudóttir og Sara Sif Helgadóttir samtals 22 skot. Hjá Stjörnunni voru Embla Steindórsdóttir og Helena Rut Örvarsdóttir markahæsta með 6 mörk hvor.
Valur er sem fyrr á toppi deildarinnar, nú með 22 stig eftir 11 leiki. Haukar eru í 2. sæti með 18 stig og eiga leik til góða. Stjarnan er í 6. sæti með fimm stig, aðeins markatölu frá fallsæti.
ÍR sótti ÍBV heim til Vestmannaeyja en mátti síns lítils. Fór það svo að ÍBV vann með 7 marka mun, lokatölur 26-19.
Sunna Jónsdóttir var markahæst í liði ÍBV með 5 mörk á meðan þær Elísa Jónsdóttir, Amelía Einarsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir skoruðu 4 mörk hver. Marta Wawrzykowska átti svo stórleik í markinu þegar hún varði 19 skot og var með 50 prósent hlutfallsmarkvörslu. Hjá ÍR var Karen Tinna Demian markahæst með 6 mörk og Ísabel Schöbel Björnsóttir varði 9 skot í markinu.
ÍBV er áfram í 4. sæti, nú með 14 stig á meðan ÍR er í 5. sæti með 10 stig.