Þegar Sigtryggur Arnar skoraði þrist stuttu eftir að hann kom inn í leikinn þá varð hann fyrsti leikmaðurinn í íslenskum körfubolta til að skora þriggja stiga körfu í hundrað leikjum í röð á Íslandsmóti og í bikarkeppni.
Fjallað var um afrek Sigtryggs Arnar í Subway Körfuboltakvöldi í gær en hann hafði áður slegið met Frank Booker eldri sem skoraði á sínum tíma þrist í 84 leikjum í röð í deild, úrslitakeppni og bikarkeppni.
Sigtryggur Arnar hefur skorað þrist í öllum leikjum í deild, úrslitakeppni og bikar sem hann hefur spilað í hér á landi frá 25. október 2019. Hann fór út í atvinnumennsku í eitt tímabil en hélt uppteknum hætti þegar hann kom aftur heim.
Hann náði síðast ekki að skora þrist í leik með Grindavík á móti Njarðvík 25. október 2019.
Í þessum hundrað leikjum hefur hann skorað alls 324 þriggja stiga körfur og nýtt 36 prósent skota sína.
Booker skoraði á sínum tíma 414 þrista í þessum 84 leikjum eða 4,9 í leik. Booker skoraði þriggja stiga körfu í öllum leikjum sínum nema einum.
- Þristar í 100 leikjum í röð hjá Sigtryggi Arnari Björnssyni
- 2019-20
- 17 deildarleikir
- 5 bikarleikir
- 2021-22
- 22 deildarleikir
- 14 leikir í úrslitakeppni
- 5 bikarleikir
- 2022-23
- 19 deildarleikir
- 13 leikir í úrslitakeppni
- 2023-24
- 5 deildarleikir