„Það hefur verið talsvert álag af því í dag. Það voru komin um tuttugu síðast þegar ég taldi, sem voru búin að leita á deildina vegna hálkuslysa í dag,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.
Í flestum tilfellum sé um að ræða fólk sem hafi runnið og orðið fyrir höfuðhöggum.
„Síðan getur verið um mar, tognanir og beinbrot að ræða, sem fylgja þessum áverkum.“

Deildin til þess að sinna verkefnum sem þessum
Hjalti segir hálkuslys vissulega setja aukið álag á deildina.
„En til þess er deildin, að sinna þessum vandamálum. Þannig að við reynum að veita öllum eins góða þjónustu og hægt er,“ segir Hjalti.
Mikið álag sé á heilbrigðiskerfinu, eins og venjulega.
„Þessir hálkudagar eins og þeir eru, þá þarf að brýna fyrir fólki að fara varlega og nota mannbrodda og hálkuvarnir eins og hægt er,“ segir Hjalti.