Enski boltinn

Ratcliffe svarar ósáttum stuðnings­mönnum: „Breytingar munu taka tíma“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sir Jim Ratcliffe, nýjasti eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United.
Sir Jim Ratcliffe, nýjasti eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United. Bryn Lennon/Getty Images

Sir Jim Ratcliffe sendi frá sér opið bréf til stuðningsmanna þar sem hann svaraði yfirlýsingu MUST (Manchester United Supporters Trust). 

Ratcliffe gekk í fyrradag frá kaupum á 25% hlut í Manchester United, samkvæmt skilmálum samningsins tekur hann yfir daglegan rekstur félagsins og stýrir framtíðaráformum þess. 

Stuðningsmannaklúbbur félagsins sendi frá sér yfirlýsingu síðar um kvöldið þar sem látið var í ljós blendnar tilfinningar um kaupin, þá sérstaklega í ljósi þess að Glazer fjölskyldan er ekki alveg horfin á brott og heldur ennþá stórum hlut í félaginu. Þeir sögðu mörgum spurningum enn ósvarað um framtíð félagsins.

Ratcliffe svaraði bréfi þeirra í dag, þar óskaði hann eftir biðlund og þolinmæði, hann axlaði fulla ábyrgð sem forustymaður félagsins og sagði mikinn metnað búa í brjósti sér að koma Manchester United aftur í fremstu röð. 

„Kæru stuðningsmenn, ég skrifa til ykkar allra í ljósi þeirra gríðarstóru áhrifa sem aðdáendur hafa á framtíð félagsins á sama tíma og við öxlum ábyrgð sem forráðamenn félagsins fyrir ykkar hönd. 

Ég trúi því að við getum náðum árangri inni á vellinum til bætingar við þann fjárhagslega árangur sem náðst hefur. Það mun taka tíma... Þið eruð metnaðarfull og það erum við líka. Ekkert er öruggt í íþróttum og breytingar munu taka tíma en við erum hér til framtíðar og viljum í sameiningu lyfta Manchester United aftur upp í hæstu hæðir þar sem félagið á heima.“

Ratcliffe bætti því svo við að líkt og með alla samninga þyrfti samþykki frá stjórn úrvalsdeildarinnar, sem tekur að jafnaði 6-8 vikur, og sagði stuðningsmönnum að engum áætlunum yrði hrint í framkvæmd fyrr en það væri frágengið. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×