Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar staðfestir þetta í samtali við Vísi. Hann segir að maðurinn hafi verið á milli Keilis og Kistufells.
Hann hafi gefið svokallað SOS-merki og því hafi verið ákveðið að kalla út þyrlu og björgunarsveitir. Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið á vettvang.
Að sögn Ásgeirs þekkir hann ekki deili á manninum, en upphaflega var talið að um tvo menn væri að ræða. Þá ekki hvort um sé að ræða vísindamenn eða aðra göngumenn. Ens og fram hefur komið er gossvæðið nú lokað almenningi.
Merki hugsanlega gefið úr síma
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir þónokkuð fjölmennt lið björgunarsveita komið langleiðina upp að Litla hrút.
Aðspurður um hvernig SOS-merki hafi verið gefið segir hann það mögulega hafa verið úr síma, hugsanlega með þar til gerðu snjallforriti.
„En þá blikkar semsagt ljós með þremur stuttum, þremur löngum og þremur stuttum. Smá pása á milli. Þetta er alþjóðlegt SOS-merki.“
Flugmaður lítillar einkaflugvélar sem flaug yfir svæðið varð var við merkið og lét flugturn vita, sem hafði samband við aðgerðarstjórn á Suðurnesjum.
Frost og mikil kæling er á svæðinu að sögn Jóns Þórs, sem hafði ekki frekari upplýsingar um manninn sem eða í hvaða tilgangi hann væri á svæðinu.
Uppfært klukkan 21:35:
Ásgeir Erlendsson staðfestir í samtali við fréttastofu að maðurinn sé fundinn. Hann var kaldur og hrakinn og er á leið til baka til Reykjavíkur til aðhlynningar. Hann hafði skilið búnaðinn sinn eftir með blikkljósum og þess vegna var í fyrstu haldið að um tvo menn væri að ræða.