„Í augnablikinu er þarna tiltölulega lítil viðvera. Allar sveitir á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út í gærkvöldi sem viðbragð við að það væri ekki alveg vitað hvar gosið væri, hvaða áhrif það hefði og annað. Þegar ljóst var að það væri staðsett nokkuð vel og ekki væri hætti á hraunrennsli niður í Grindavíkurbæ, alla vega á næstunni, voru þær í raun bara sendar heim,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
Jón Þór segir að þegar hafi verið búið að skipuleggja viðveru einhverra sveita á svæðinu.
„Það var skipulag í gildi um ákveðna viðveru á svæðinu áður en til goss kom. Það var hægt og rólega búið að draga úr þeirri viðveru, alltaf færri og færri. Hvort það hafi verið aukið í dag, mér er ekki alveg kunnugt um það. Það gæti verið eitthvað smá en ekki mikið,“ segir Jón Þór.

„Núna erum við í raun bara að skipuleggja viðveru með hliðsjón af nýjum aðstæðum næstu daga og síðan þarf framtíðin að leiða í ljós hver þörfin verður. Hún verður örugglega meiri ef það verður opnað fyrir almenna umferð uppeftir og fólk fer að ganga nær gosstöðvunum.“
Inntur að því hvert hljóðið sé meðal björgunarsveitarmanna að gosið leggist ofan á jólastress og annað segir Jón Þór flesta tilbúna að sinna sínu.
„Ég held að menn taki þessu bara eins og hverju öðru hundsbiti. Þetta er bara verkefni sem þarf að fást við. Auðvitað er þetta ekki þægileg tímasetning en við getum aldrei valið góða tímasetningu, hvorki þegar kemur að náttúruhamförum eða slæmu veðri. Það fylgir því að gefa sig út fyrir þetta,“ segir Jón Þór.
„Það verður kannski ekki slegist um að vera á gosvakt á aðfangadagskvöld en fólk vílar ekki við sér að standa upp frá jólamatnum ef fólk er í neyð.“