Samkvæmt heimildum People hefur parið nú slitið samvistum en parið er sagt hafa byrjað saman í febrúar þegar það sást á tvöföldu stefnumóti með stjörnuparinu Justin og Hailey Bieber.
Jenner og Bad Bunny, sem heitir réttu nafni Benito Antonio Martínez Ocasio, sáust síðast saman í október í eftirpartýi skemmtiþáttanna Saturday Night Live, en Bad Bunny kom fram í þeim þáttum. Síðan þá hefur ekki sést til þeirra saman og heimildir herma að sambandinu hafi verið slitið.
Bad Bunny er samkvæmt topplistum Spotify árið 2023 annar mest spilaði tónlistarmaður á streymisveitunni næst á eftir Taylor Swift. Meira en 77 milljón notendur Spotify hlusta á hann mánaðarlega.
Þá er Jenner ofarlega á listum yfir tekjuhæstu fyrirsætur heims. Að auki á hún að baki glæstan feril sem raunveruleikastjarna í þáttunum um Kardashian fjölskylduna. Því er um að ræða eitt allra frægasta par Hollywood.