Það er kannski eitt atvik, þegar að þú skorar þessi mörk á móti Bröndby og gerir út um titilvonir þeirra á sínum tíma. Það dró dilk á eftir sér.
„Já og gerir það enn þann dag í dag þó það sé ekkert eitthvað sem er að stressa mig á. Kaupmannahöfn er náttúrulega skipt í tvennt á milli þessara tveggja liða, FC Kaupmannahafnar og Bröndby. Ég var að spila minn síðasta leik fyrir AC Horsens og fékk þau skilaboð frá þjálfaranum að ég myndi koma inn sem varamaður í þessum tiltekna leik gegn Bröndby. Þetta var síðasti heimaleikurinn, algjörlega pakkaður völlur og Bröndby gat tryggt sér titilinn.“
Kjartan kom inn á sem varamaður undir lok leiks. Staðan var þá 2-0 fyrir Bröndby og útlitið bjart fyrir titilvonir þeirra.
Kjartan gerði sér hins vegar lítið fyrir og skoraði tvö mörk fyrir AC Horsens fyrir leikslok og jafnaði leikinn í stöðuna 2-2 sem urðu lokatölur leiksins.
„Þeir töpuðu titlinum. Það er eitthvað móment sem ég mun aldrei gleyma.“
Svefnlausar nætur
Stuðningsmenn Bröndby voru allt annað en sáttir með þessa niðurstöðu. Kjartan Henry og fjölskyldan hans fengu að finna fyrir reiði stuðningsmannanna.
„Það voru þarna menn með húðflúr á andlitinu bankandi upp á heima hjá mér og brjótandi rúður. Það var ekkert sérlega skemmtilegt en geggjuð minning eftir á. Það er alltaf gaman að eyðileggja partýið.“
Óprúttnir aðilar herjuðu einnig á heimili fjölskyldunnar eftir leik á meðan að Kjartan Henry var enn á leikstað.
„Konan mín var heima með krakkana og við vorum einnig með au-pair hjá okkur á þessum tíma. Við leikmennirnir máttum ekki fara út af leikvanginum þar sem að stuðningsmenn voru að reyna að brjótast inn.
Við vorum því læstir inni og ég fæ símtal frá konunni minni þar sem hún tjáði mér að það væru menn fyrir utan heimilið okkar með læti og bankandi á hurðina. Ég náttúrulega tjúllaðist við þetta, laumaði mér út af leikvanginum og brunaði heim.“
Þá voru umræddir menn á bak og burt og segir Kjartan Henry að tekið hafi við svefnlausar nætur.
„Svo fékk maður alls konar morðhótanir en á sama tíma fékk ég blóm og ástarkveðjur frá stuðningsmönnum FC Kaupmannahafnar. Það eru því tvær hliðar á þessu.“