Í munnlegu skýrslunni taldi Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, upp öll þau skref sem Ísland hefur stigið til að milda þjáningu palestínsku þjóðarinnar. Til að mynda hefðu íslensk stjórnvöld margfaldað framlög til mannúðaraðstoðar á Gasa síðustu vikurnar og einnig til rannsóknar á ábendingum um stríðsglæpi.
Í gærkvöldi sagði Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels segir að ekkert muni stoppa Ísraelsmenn. Sótt verði fram til fullnaðarsigurs þrátt fyrir þrýsting frá alþjóðasamfélaginu og vísaði þar til yfirlýsingar neyðarfundar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þar sem kallað var eftir vopnahléi.
Bjarni sagði að það væri skiljanlegt að fólk vildi leita allra leiða til að hafa áhrif á átökin en um það hefur verið spurt á Alþingi hvort Ísland hefði í hyggju að ýmist slíta stjórnmálasambandi við Ísrael eða beita ríkið viðskiptaþvingunum.
„Hins vegar eru engar heimildir í lögum og engin fordæmi fyrir því að Ísland setji á einhliða viðskiptaþvinganir. Við innleiðum aðgerðir Evrópusambandsins og Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og munum gera það áfram.“
Engar umræður í þá veru hafi verið ræddar á alþjóðavettvangi.
„Það þjónar ekki hagsmunum neins og ekki heldur Palestínu að Ísland slíti stjórnmálasambandi við Ísrael. Stjórnmálasamband milli ríkja er forsenda þess að koma afstöðu sinni á framfæri, eiga samskipti og hafa áhrif. Í sögulegu ljósi hefur Ísland aðeins einu sinni slitið stjórnmálasambandi við Breta í þriðja þorskastríðinu í febrúar 1976.“
Á morgun heldur utanríkisráðherra út til Ósló þar sem utanríkisráðherrar Norðurlandanna, Benelux landanna og nokkurra Arabaríkja munu koma saman. Þá mun ráðherrann eiga tvíhliða fund með utanríkisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar.
„Fundurinn er tækifæri til að ræða friðarhorfur, heyra viðhorf annarra og koma afstöðu okkar á framfæri,“ sagði Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra.