Ragnheiður segir að um það bil fimmtán mínútur hafi liðið frá því að fregnirnar bárust og þar til fólk var komið að Hólmsheiði, þar sem Edda hefur verið í haldi. Hún sé þar enn nema lögregla hafi flutt hana burt á þessu korteri, sem Ragnheiði þykir ólíklegt.
„Lögreglan er búin að koma hérna og fylgjast með okkur fjórum sinnum. Við vitum ekki alveg hvað er í gangi,“ segir Ragnheiður. Um sautján bifreiðar loka aðkomunni að fangelsinu, segir hún; einhverjir hafi farið frá því á miðnætti en aðrir bæst í hópinn.
Ragnheiður segir að sér skiljist að yfirvöldum beri ekki að láta lögmann Eddu Bjarkar vita af ferðum hennar umfram þá tilkynningu sem barst í gær að hún yrði flutt til Noregs.
Planið sé að vera við Hólmsheiði til klukkan átta.
„Við ætlum að vera hérna þangað til flugvélin er farin til Osló eða þeir hætta við þetta og málinu leyft að hafa þann gang sem það á að hafa. Við gerum ráð fyrir að fara héðan um áttaleytið. Við verðum þá búin að vera hér í um níu tíma.“