Handbolti

Ís­lendinga­lið í milli­riðil

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óðinn Þór átti góðan leik í kvöld.
Óðinn Þór átti góðan leik í kvöld. Vísir/Getty

Fjöldi Íslendinga var í eldlínunni í Evrópudeild karla í handbolta í kvöld. Að sama skapi er fjöldi Íslendingaliða búin að tryggja sér sæti í milliriðli þó enn sé ein umferð eftir af riðlakeppninni.

Arnór Snær Óskarsson skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar í átta marka sigri Rhein-Neckar Löwen á Kristianstad frá Svíþjóð, lokatölur 36-28.

Í hinum leik A-riðils vann Nantes fjögurra marka útisigur á Benfica, lokatölur 34-38. Stiven Tobar Valencia skoraði eitt mark í liði Benfica en í marki gestanna varði Viktor Gísli Hallgrímsson 10 skot.

Staðan í riðlinum er þannig eftir fimm umferðir af sex að Löwen er á toppnum með 10 stig, Nantes í 2. sæti með 8 stig, Benfica 3. sæti með 2 stig og Kristianstad án stiga. Efstu tvö lið hvers riðils fara áfram í milliriðil.

Sävehof frá Svíþjóð er komið upp úr C-riðli eftir þrettán marka sigur á Cuenca í kvöld, lokatölur 40-27. Sigurinn þýðir að Sävehof er með 10 stig í efsta sæti C-riðils. Tryggvi Þórisson skoraði eitt marka sigurliðsins.

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fimm mörk þegar Kadetten lagði Flensburg með eins marks mun, lokatölur 25-24. Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað hjá gestunum. Bæði lið eru með 8 stig og eru komin áfram í milliriðil.

Orri Freyr Þorkelsson skoraði þrjú mörk þegar Sporting frá Portúgal rúllaði yfir Chrobry Głogów á útivelli, lokatölur í Póllandi 22-35. Sporting þarf enn sigur í lokaumferð H-riðils til að tryggja sér sæti í milliriðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×