Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. Eins og fram hefur komið hafa almannavarnir ákveðið að færa almannavarnastig í Grindavík af neyðarstigi niður á hættustig frá og með klukkan 11:00 á morgun. Ástæðan er ný gögn Veðurstofunnar.
Í þeim gögnum kemur meðal annars fram að litlar hreyfingar mælist innan sigdalsins í og við Grindavík. Sterkar vísbendingar séu um tengsl milli kvikusöfnunar í Svartsengi og myndun kvikugangsins.
Þá segir Veðurstofa að aflögun og innflæði tengd kvikuganginum haldi áfram að minnka. Landris við Svartsengi haldi áfram á svipuðum hraða. Líkanreikningar bendi til þess að innflæði í kvikuganginum sé mest við Sundhnjúksgíga, um fjórum kílómetrum norðaustan við Grindavík.
Það að kvikan undir Grindavík sé að hluta til storknuð dragi úr líkum á að sú kvika nái skyndilega að brjóta sér leið til yfirborðsins innan bæjarins. Þó er tekið fram að áfram séu taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum og er líklegasta svæðið fyrir eldgos á milli Hagafells og Sýlingarfells.
Gæti flætt inn í kvikugang undir Grindavík
Veðurstofa segir mikilvægt að taka fram að sterkar vísbendingar séu um tengsl milli kvikusöfnunar í Svartsengi og myndun kvikugangsins 10. nóvember. Líkön bendi til þess að kvikan í innskotinu sem myndaði sylluna undir Svartsengi hafi hlaupið í austur að Sundhnúksgígum og í kjölfarið myndað kvikuganginn með þeim miklu umbrotum sem þá urðu.
Á meðan að landris í Svartsengi heldur áfram megi búast við að kvikan sem safnist þar geti hlaupið aftur. Við það gæti hún flætt inn í kvikuganginn sem nú liggur undir Grindavík.
Einnig megi reikna með að nýr kvikugangur geti myndast til dæmis vestur af landrisinu við Svartsengi. Fyrirboðar um slíka atburðarás væri hægt að greina á skjálfta- og GPS mælum.