Sport

Sól­ey Margrét gerði at­lögu að HM-gulli í lokatilrauninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sóley Margrét Jónsdóttir hefur unnið gullverðlaun á EM og silfurverðlaun á HM á þessu ári.
Sóley Margrét Jónsdóttir hefur unnið gullverðlaun á EM og silfurverðlaun á HM á þessu ári. @soleymjonsdottir)

Sóley Margrét Jónsdóttir vann silfurverðlaun í samanlögðu á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem fór fram í Druskininkai í Litháen.

Sóley Margrét endaði með fern verðlaun um hálsinn en rétt missti af heimsmeistaratitlinum. Hér er verið að keppa í kraftlyftingum með útbúnaði.

Þetta er annað árið í röð sem Sóley endar í öðru sæti á heimsmeistaramótinu. Sóley sló líka í gegn á EM í vor þar sem hún varð Evrópumeistari í Danmörku.

Sóley háði harða baráttu við Katrinu Sweatman frá Bretlandi og var keppnin á milli þeirra jöfn og gríðarlega spennandi. Þær keppa í +84 kílóa flokknum.

Í hnébeygju lyfti Sóley mest 277,5 kílóum og með því tryggði hún sér gullverðlaun í greininni en í bekkpressu fékk hún silfurverðlaun fyrir 180 kílóa lyftu.

Úrslitin réðust svo í réttstöðulyftunni þar sem Sóley gerði atlögu að heimsmeistaratitlinum í tilraun sinni við 212,5 kíló en mistókst naumlega eftir hörkubaráttu við þyngdina.

Endaði hún með 200 kílóa lyftu í réttstöðu og fékk bronsverðlaun í þeirri grein.

Samanlagt lyfti Sóley 657,5 kílóum og vann til silfurverðlauna fyrir samanlagðan árangur og kemur því heim hlaðin verðlaunapeningum eða með eitt gull, tvö silfur og eitt brons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×