„Þarna er ríkið að stíga inn og tryggja upp að ákveðnu hámarki greiðslur launa. Þannig að atvinnurekandi fær þá það framlag frá ríkinu, og við erum að vonast til þess að það létti undir þannig að hann geti þá greitt full laun til fólks,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Hámarksgreiðsla vegna hvers starfsmanns verði 633 þúsund krónur. Guðmundur segir hugsunina vera þá að atvinnurekendur greiði svo þá upphæð sem upp á vantar, til að starfsfólk þeirra fái full laun greidd.
„Og það er mikilvægt að viðhalda ráðningarsambandinu á milli atvinnurekanda og launafólks, því við vitum í raun ekki nákvæmlega hvenær þessu ástandi linnir eða það breytist með þeim hætti að hægt verði að fara að stunda aftur vinnu í Grindavík.“
Nær einnig til sjálfstætt starfandi
Fyrstu umræðu um frumvarpið er nú lokið í þinginu. Verði frumvarpið að lögum tekur það gildi afturvirkt, frá 11. nóvember. Frumvarpið byggir á aðgerðum sem gripið var til í kórónuveirufaraldrinum.
„Það er markmiðið að Grindvíkingar missi ekki laun. Og ef að, út af einhverjum aðstæðum, fyrirtæki getur ekki greitt laun þá geta einstaklingar sjálfir sótt um til Vinnumálastofnunar eða ríkisins, til þess að fá þá upp að þessu hámarki, 633 þúsund krónum. Þar með séum við að tryggja ákveðnar greiðslur til fólks og draga úr þeirri óvissu sem auðvitað er uppi, og fólk þarf að eiga við núna vegna afkomu sinnar.“
Frumvarpið muni einnig ná til þeirra sem starfa sjálfstætt.
„Þeir geta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, líka sótt um þetta,“ sagði Guðmundur.