Handbolti

Liðsfélagi Ómars Inga og Janusar Daða skoraði 26 mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Pettersson átti ótrúlegan dag í stórsigri SC Magdeburg.
Daniel Pettersson átti ótrúlegan dag í stórsigri SC Magdeburg. Getty/Marco Wolf

Evrópumeistarar SC Magdeburg tryggðu sér sæti í undanúrslitum heimsmeistarakeppni félagsliða í handbolta í dag eftir 43 marka sigur á University of Queensland frá Ástralíu, 57-14.

Magdeburgar liðið hefur titil að verja en félagið vann þessa keppni í fyrra eftir sigur á Barcelona í úrslitaleik. Spilað er í Dammam í Sádí Arabíu eins og í fyrra. 

Magdeburg vann báða leiki sína í riðlinum með samtals 52 marka mun og mætir pólska liðinu Industria Kielce í undanúrslitum keppninnar. Haukur Þrastarson var með fjórar stoðsendingar en náði ekki að skora þegar Kielce vann sinn leik örugglega í dag, 49-23 á móti San Francisco CalHeat frá Bandaríkjunum..

Íslensku landsliðsmennirnir Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason tóku því rólega í dag og voru aðeins með fjögur mörk saman, Janus skoraði þrjú en Ómar eitt. Janus gaf níu stoðsendingar og Ómar Ingi var með sjö stoðsendingar.

Stjarna leiksins var aftur á móti sænski hægri hornamaðurinn Daniel Pettersson sem skoraði 26 mörk úr 27 skotum í leiknum. Pettersson skoraði þrettán mörk úr hraðaupphlaupum og tólf mörk úr hægra horninu.  Eitt marka hans kom síðan af línu.

Pettersson var snemma kominn með þrettán mörk og fékk því að spila mikið til að setja markamet í keppninni.

Hann skoraði á endanum tólf mörkum meira en allt ástralska liðið til samans.

Lukas Mertens var næstmarkahæstur í þýska liðinu með tólf mörk og því voru næstum því tveir leikmenn sem skoruðu jafnmikið og leikmenn Queensland til samans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×